Lýðræðið er einn af hornsteinum samfélagsins. Við þurfum í sameiningu að varðveita það og rækta með öllum tiltækum ráðum. Í kosningunum í maí sl. var kosningaþátttaka minni en nokkru sinni. Kosningaþátttakan fór meira að segja niður fyrir 50% í einstaka sveitarfélögum sem þýðir að annar hver kjósandi tók ákvörðun um að mæta ekki á kjörstað. Við skulum að minnsta kosti vona að um hafi verið að ræða meðvitaða ákvörðun um slíkt, því kosningarétturinn er grundvallarréttur íbúa í lýðræðisríki og þá er mjög mikilvægt að öll þau sem hafa slíkan rétt séu meðvituð um hann.
Við sem aðstoðuðum félaga okkar í kosningabaráttunni urðum þess áskynja að fjöldi fólks virtist ómeðvitaður um kosningarétt sinn. Það er yfirvalda að tryggja að réttindi fólk séu þeim ljós og því er það miður að hópur fólks, aðallega fólk sem flutt hefur hingað frá útlöndum, hafi ekki haft hugmynd um þennan rétt sinn. Í fyrsta lagi kann það að flækjast fyrir að réttur til að kjósa er ólíkur eftir því hvort um er að ræða alþingiskosningar eða kosningar til sveitarstjórna. Í alþingiskosningum eru það eingöngu íslenskir ríkisborgarar búsettir hér, sem og þeir sem kært hafa sig inn á kjörskrá fyrir ákveðna dagsetningu, sem geta kosið.
Í sveitarstjórnarkosningum hafa erlendir ríkisborgarar hins vegar mun rýmri rétt því öll þau sem hafa búið hér í þrjú ár eða lengur mega kjósa og ríkisborgarar Norðurlanda eftir eins árs búsetu. Í Reykjanesbæ, þar sem kosningaþátttaka fór undir 50%, er fjórðungur íbúa með erlent ríkisfang. Ég held að það sé óhætt að draga þá ályktun að skortur á upplýsingum um fenginn kosningarétt til íbúa af erlendum uppruna sé meginástæða þess að kosningaþátttakan var eins dræm og raun ber vitni.
Fyrir kosningarnar 2018 vildi Reykjavíkurborg fagna nýjum kjósendum með kynningarpósti til þeirra um hinn nýfengna grundvallarrétt. Því miður var sú góða upplýsingagjöf af hálfu reykvískra stjórnvalda kærð til Persónuverndar sem felldi þann úrskurð að kynningin hefði verið óheimil þar sem hamingjuóskir um nýfenginn kosningarétt og hvatning til að taka þátt í kosningunum væru of gildishlaðin skilaboð.
Gott og vel, en ég held að við sem íbúar í lýðræðisríki hljótum að gera þá kröfu að stjórnvöld upplýsi kjósendur um þennan grundvallarrétt. Hvort tveggja ungt fólk sem og fólk af erlendum uppruna sem öðlast hér kosningarétt á rétt á að fá vitneskju um rétt sinn. Það er skaðlegt lýðræðinu ef stórir þjóðfélagshópar nýta ekki þann rétt sinn því þá endurspegla kjörnir fulltrúar ekki vilja allra íbúa landsins, heldur bara þess hóps sem upplýstur er um þennan rétt sinn, þess hóps sem fylgist með íslenskum fjölmiðlum og þess hóps sem vegna félagslegra tengsla veit af kosningunum.