Launaþjófnaður er glæpur gegn okkur öllum

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. október 2020

Á hverju ári bendir allt til að yfir milljarður króna sé hafður af vinnandi fólki á Íslandi með launaþjófnaði. Kjarasamningsbrotin eiga sér margar og mismunandi birtingarmyndir. Launafólk er svikið um desemberuppbót, jafnaðarkaup greitt sem er langt undir taxta og orlofsgreiðslur og lögbundnir frídagar falla niður. Þegar atvinnurekendur eru staðnir að slíkum launaþjófnaði tekur það launafólk marga mánuði, jafnvel ár, að fá kröfuna innheimta og engin sekt eða bótaupphæð leggst ofan á kröfuna. Fælingarmáttur þessa þjófnaðar fyrir atvinnurekendur er því lítill sem enginn og einungis er leiðrétt hjá þeim einstaklingi sem leitar réttar síns en ekki hópnum öllum. Þolendur eru iðulega launþegar í viðkvæmri stöðu; tekjulágt fólk sem hefur fyrir fjölskyldum að sjá og er tilbúið til að láta ýmislegt yfir sig ganga til að halda í vinnu, ekki síst í atvinnuleysiskreppu eins og nú er og innflytjendur sem hvorki þekkja rétt sinn né kunna tungumálið.

Launaþjófnaður er auðvitað fyrst og fremst glæpur gagnvart þeim sem brotið er á, en hann bitnar líka á samfélaginu öllu í formi tapaðra skatttekna, bjagaðrar samkeppni og óheilbrigðs vinnumarkaðar. Það er smánarblettur á íslenskri vinnumarkaðslöggjöf að enn í dag, árið 2020, sé ekki kveðið með skýrum hætti á um sektir eða viðurlög vegna þessara brota. Í skjóli refsileysis getur launaþjófnaður grasserað og orðið að hálfgerðu viðskiptamódeli hjá þeim sem svífast einskis á kostnað okkar allra. Við þekkjum öll þessi dæmi.

Loforð sem gefin voru við undirritun lífskjarasamningsins fyrri hluta árs 2019 gáfu vonir um að breytinga væri að vænta; að launaþjófnaður yrði loksins gerður refsiverður og þannig skapaður raunverulegur fælingarmáttur gegn slíkum verknaði. Nú er hins vegar liðið eitt og hálft ár síðan kjarasamningar voru undirritaðir og enn hefur ríkisstjórnin ekki efnt þennan hluta samkomulagsins. Í millitíðinni hefur staða vinnandi fólks veikst vegna sögulegs atvinnuleysis og algers hruns stærstu atvinnugreinar landsins. Ríkisstjórnin hefur gert vont ástand verra með því að halda atvinnuleysisbótum í lágmarki og beinlínis borga fyrirtækjaeigendum styrki fyrir að reka starfsfólk. Í þessu árferði verður neyðin enn meiri en áður og hætt við að arðránið á þeim sem veikast standa verði enn svæsnara.

Við í Samfylkingunni munum standa með verkalýðshreyfingunni og ganga á eftir því í vetur að leidd verði í lög afdráttarlaus ákvæði gegn launaþjófnaði. Lykilatriði er að án tafar verði lögfest févíti gegn kjarasamningsbrotum þannig að Alþingi sýni með hverjum það raunverulega standi.

Launaþjófnaður á ekki að vera refsilaus frekar en annar þjófnaður. Þetta er einfalt sanngirnismál sem þarf að laga strax.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram