Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2021
Í liðinni viku varð birt niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í máli íslenska ríkisins gegn umsækjanda um starf ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneyti. Niðurstaðan var skýr; ekki voru fyrir hendi neinir annmarkar á málsmeðferð kærunefndar jafnréttismála sem leitt gátu til þess að fallist yrði á kröfu íslenska ríkisins um ógildingu á úrskurði kærunefndar. Var íslenska ríkinu gert að greiða stefndu 4,5 milljónir króna.
Dagur var ekki liðinn þegar menntamálaráðherra lýsti því yfir að hún hygðist áfrýja málinu til Landsréttar. Umsækjandi um starf ráðuneytisstjóra sem leitaði til kærunefndar fær því enn að verma bekk stefndu og ómakinu sem felst í því að eiga í dómsmáli gegn ríkinu er ekki lokið.
Menntamálaráðherra er vissulega í fullum rétti til að nýta allar heimildir sínar til málshöfðunar og áfrýjunar en það má velta fyrir sér þeim aðstöðumun sem hér er á ferðinni. Krafti íslenska ríkisins í málarekstri gegn einstaklingi. Ríkið á þennan rétt, en það þarf að mínu mati að ganga fram af ákveðnu meðalhófi og á það hefur Umboðsmaður bent. Einnig eru fyrir því fordæmi í sambærilegum málum. Það er alltaf vont að tapa en stundum þarf að hugleiða hvort rétt sé að halda áfram eins langt og mögulegt er á kostnað allra annarra en þess sem ákvörðunina tekur.
Aðstöðumunurinn hefur einnig komið til álita vegna annars máls, er íslenska ríkið tók þá ákvörðun að bera niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu undir yfirdeild sama dómstóls. Þar tók ríkisstjórn Íslands þá ákvörðun að verjast af fullri hörku fyrir undirdeild og sækja svo til yfirdeildar vegna ólögmætrar dómaraskipunar Sigríðar Á Andersen þáv. dómsmálaráðherra. Fyrir Alþingi liggur svar um hluta þess kostnaðar sem landsréttarmál hefur kostað skattgreiðendur og er þar um að ræða nærri 150 milljónir króna. Aðstöðumunur málsaðila er umtalsverður. Íslenska ríkið keypti sér sérfræðiaðstoð í aðdraganda og í kjölfar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu og yfirdeildar sama dómstóls fyrir rúmar 36 milljónir króna. Þýðingakostnaður íslenska ríkisins vegna sama málareksturs var rúmar sex milljónir. Þá er ótalinn kostnaður embættis ríkislögmanns vegna starfa lögfræðiteymis embættisins en enn er beðið svara vegna þess en fjöldi starfsmanna sinntu málinu. Gagnaðili í málinu fékk dæmdan málskostnað í Strassborg úr hendi ríkissjóðs að fjárhæð 3 milljónir króna en þar af var beinn kostnaður við rekstur málsins 1.2 milljónir. Það er því augljóst að sá einstaklingur sem leitar réttar síns gat ekki sótt mál af viðlíka þrótti og íslenska ríkið og ber að hafa það, sem og hversu íþyngjandi þessi málarekstur er, í huga þegar ráðherrar taka ákvarðanir sínar um áframhaldandi málarekstur fyrir dómi.