Mannréttindi hverra á að skerða?

Á 14. mánuði í kórónuveirufaraldri er eðlilega komin upp þreyta í samfélaginu. Röskun á daglegu lífi almennings hefur verið töluverð, því þrátt fyrir að íbúar heims hafi orðið fyrir mismiklu höggi varðandi rekstur heimila og fyrirtækja þá hafa flestallir fundið fyrir röskun á daglegu lífi sínu.
Umræða undanfarinna vikna um mannréttindi ferðafólks sem skyldað er í sóttkví og sýnatökur hefur verið býsna fróðleg. Hefur hún snúist um það hvernig mannréttindi ferðafólks eru skert með allskonar hömlum við komuna hingað til lands og hafa þeir sem bent hafa á að landamærin hafi allan tímann verið galopin ferðafólki verið gagnrýndir harðlega.

Þegar sóttvarnayfirvöld setja á hömlur þá blasir við að réttindi einhverra skerðast. Réttindi til athafna, atvinnu, funda og samvista og þá þurfa sóttvarnayfirvöld, sóttvarnalæknir sem og heilbrigðisráðherra að vega og meta réttindi ólíkra hópa og gæta meðalhófs með tilliti til ólíkra þarfa ólíkra hópa. Á sama tíma og einn hópur ræðir réttindi ferðafólks hafa 97 þúsund námsmenn búið við skertan rétt til náms. Á sama tíma og námsmenn hafa fundið leið til að lifa fjarnámið af hafa ótal margir eldri íbúar landsins búið við skertan rétt til samvista við sína nánustu eða aðra íbúa í þjónustukjörnum. Matarpoki dagsins hefur verið hengdur á hurðarhúninn í þágu sóttvarna og einmanaleikinn grefur um sig. Á sama tíma og eldra fólk hefur haft skertan rétt til samveru hafa fermingarbörnin misst af
fermingarveislum sínum og stúdentar af útskriftarferðum og árshátíðum. Listafólk af öllu tagi hefur búið við skert atvinnufrelsi í nærri allan þann tíma sem faraldur hefur geisað og íþróttafólk sömuleiðis. Þessar starfsstéttir
hafa ekki getað stundað sína atvinnu vegna samkomuskerðinga innanlands með tilheyrandi tekjuhrapi en horfa nú upp á neyðarkall þeirra sem liðka vilja fyrir mannréttindum ferðafólks víðs vegar að úr heiminum til ferðalaga til Íslands. Réttur til atvinnu, íþróttaiðkunar, samkomu, samvista eða funda hefur verið skertur í rúmt ár.
Það er þetta sem ríkisstjórnin verður að hafa í huga þegar tekist er á um sóttvarnaleiðir við ríkisstjórnarborðið. Markmiðin með sóttvarnaaðgerðum verða að vera ljós og hagsmunir þessara hópa metnir þegar ákvarðanir um meiri eða minni takmarkanir á landamærum Íslands eru teknar því það er þar sem sóttvarnirnar bera mestan árangur.
Við getum haldið veirunni fjarri ef við viljum því við búum svo vel að vera eyja með nánast eina leið inn í landið. Vilja stjórnvöld að daglegt líf borgara sé í sem eðlilegustu horfi með veirufríu samfélagi eða vilja þau opna landamærin frekar og þá takmarka daglegt líf borgara áfram? Þessu þarf ríkisstjórnin að svara.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram