Neitunarvald forseta Alþingis

Undanfarin ár hafa fjölmiðlar, með Viðskiptablaðið í fararbroddi, reynt að fá afhenta greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, þá setts ríkisendurskoðanda, um Lindarhvol. Til upprifjunar þá setti fjármála- og efnahagsráðherra á stofn Lindarhvol árið 2016 og var hlutverk þess að annast umsýslu, fullnustu og sölu á eignum ríkissjóðs, mótteknum skv. stöðugleikasamkomulagi við hina föllnu banka. Bókfært virði stöðugleikaeigna árið 2016 var 384 milljarðar króna og áætlað virði árið 2018 460 milljarðar. Almenningur átti þarna umtalsverðar eignir, nokkurs konar skaðabætur vegna bankahrunsins og var Lindarhvol falið að sýsla með hluta þeirra.

Sigurði var gert að rannsaka störf Lindarhvols, en kjörinn ríkisendurskoðandi þess tíma var vanhæfur til verksins vegna fjölskyldutengsla. Þegar skipunartími hans rann út og nýr ríkisendurskoðandi var kosinn af Alþingi var Sigurður jafnframt tekinn úr verkefninu, þrátt fyrir að hafa þá þegar unnið mikla vinnu. Taldi hann þá rétt að skila Alþingi og ráðuneyti greinargerð um það sem hann varð áskynja við verkið. Ríkisendurskoðun skilaði síðar skýrslu um málið en heimildir herma að nokkur munur sé á niðurstöðum embættisins annars vegar og setts ríkisendurskoðanda hins vegar.

Hlutverk stjórnenda Lindarhvols var að fá hæsta mögulega verð fyrir eignir almennings við söluna, en einnig að gagnsæi og jafnræði gilti við söluna rétt eins og við sölu á öðrum ríkiseignum, svo sem Íslandsbanka sælla minninga.

Í tvö ár reyndu fjölmiðlar að fá greinargerð setts ríkisendurskoðanda afhenta og velktist málið um í forsætisnefnd allan tímann. Sendi forsætisnefnd ítrekuð erindi til Lindarhvols og fjármálaráðuneytis auk þess sem kallað var eftir lögfræðiáliti til að meta hvort umrædd afhending væri í samræmi við upplýsingalög. Í kjölfar svarbréfa var niðurstaðan skýr í apríl 2022, að full heimild væri til að afhenda greinargerðina án takmarkana og skyldi hún afhent mánudaginn 25. apríl sama ár, enda hefðu rök stjórnenda Lindarhvols ekki gefið tilefni til annars. Leyndinni skyldi aflétt enda ríkir almannahagsmunir undir.

En þá tók forseti Alþingis málin í sínar hendur og í krafti þingskaparreglna, um að sé uppi ágreiningur skeri forseti úr, tók hann þá ákvörðun um að sitja áfram á greinargerðinni gegn vilja nefndarinnar. Dómsmál er hafið vegna sölu Lindarhvols á einni af eignum félagsins en enn hvílir leynd og tortryggni yfir þessu máli, mögulega fullkomlega að óþörfu. Enn fáum við á Alþingi og allir almenningur ekki að sjá greinargerð Sigurðar Þórðarsonar til að geta sannreynt sjálf hvort eitthvað misjafnt hafi átt sér stað við þessa milljarðasölu á eignum almennings. Forseti beitti neitunarvaldi sínu og þar við situr.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram