Ný hugsun í húsnæðis- og þjónustumálum eldra fólks

Nútíminn skilar okkur þeim góða árangri að hollara líferni, betri aðstæður og meiri þekking í læknavísindum gera okkur kleift að lifa lengur. Stjórnmálin þurfa því að skapa betra samfélag fyrir sístækkandi hóp eldra fólks sem er eins fjölbreyttur og mannfólkið er almennt. Hvort sem fólk vill vera heima eða ferðast, borða heima eða úti, vera í vina hópi eða í einrúmi, spila bingó eða á gítar þá þarf að fagna þessum fjölbreytileika og búa samfélagið undir stærri hóp spræks eldra fólks.

Útskriftarvandi, biðlistar eftir hjúkrunarheimili og umræða um heimaþjónustu hefur verið fyrirferðamikil í umræðu um eldra fólk. Staðan er sú að ríkisstjórnin hefur því miður ekki komið með neinar tillögur til úrlausnar í þessum málum.

Við í Samfylkingunni kynntum okkar áherslur í vikunni og þar á meðal nýja hugsun í húsnæðis- og þjónustumálum eldra fólks. Hjúkrunarrýmum verður að fjölga og einnig að auka við heimaþjónustu svo fólk geti verið lengur heima en það þarf að huga að fjölbreytninni. Við leggjum því til nokkurs konar millistig milli heimilis og hjúkrunarheimilis. Boðum átak í húsnæðismálum eldra fólks, með uppbyggingu íbúðakjarna í nútímalegum anda í samstarfi við óhagnaðardrifin fasteigna- og leigufélög. Íbúðakjarna þar sem þjónustan er öll á jarðhæð, með aðgangi út á götu svo fleiri en bara íbúar fái notið, þar sem finna má veitinga- og kaffihús, hárgreiðslu- og snyrtistofu, fatahreinsun, nudd- og fótaaðgerðarstofu, sjúkraþjálfun og aðstöðu fyrir heimilislækni, litla kjörbúð, líkamsrækt og bar eða hvaðeina sem hentar í nærsamfélagi. Hugsunin er frábrugðin fyrri þjónustukjörnum að því leyti að þjónustan er ekki sett inn í húsið sjálft þar sem fermetrar undir þjónustu eru greiddir af íbúum hússins þannig að fermetraverð hverrar íbúðar er himinhátt heldur skal sá sem kýs að hefja reksturinn standa straum af kostnaði við sitt rými eins og eðlilegt er. Farið verði í samstarf við sveitarfélög og óhagnaðardrifin félög um byggingu slíkra íbúðakjarna þar sem þörfin er mest. Með þessu átaki verður allt í  senn hægt að losa stórar fasteignir sem nú hýsir eldra fólk, eitt eða með maka, veita betri heimaþjónustu þegar á þarf að halda, fjölga góðum árum í lífi eldra fólks með aukinni þjónustu og auknum félagsskap í nærumhverfi, og auka öryggi eldra fólks sem býr eitt.

Við þurfum að læra af því sem áður var gert því nútíminn kallar einfaldlega á meiri fjölbreytni og skemmtun. Já, rétt eins og Helgi Pétursson, tónlistarmaður og formaður landssambands eldri borgara sagði svo réttilega, þá vill elda fólk í dag hlusta á Bítlana og geta fengið sér rauðvínsglas, góða máltíð eða kaffibolla í góðra vina hópi rétt eins og annað fólk og þessu kalli þarf að mæta.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram