Ófremdarástand vegna óstjórnar

Sjálfstæðisflokkurinn hefur stjórnað dómsmálaráðuneytinu nánast linnulaust frá síðasta áratug síðustu aldar. Í eitt kjörtímabil fékk ráðuneytið frí frá flokknum en ekki nógu langt til að hægt væri að taka til í mikilvægum og vanræktum málaflokkum ráðuneytisins, eins og almannaöryggi, löggæslu, fangelsismálum og málefnum útlendinga. Þar undir heyra bæði þeir erlendu borgarar sem hingað flytja af fúsum og frjálsum vilja og þau sem þurfa af einhverjum ástæðum að flýja land sitt. 

Fyrir nokkrum árum var þannig ástatt með Sjálfstæðisflokknum að einum þingmanni flokksins var gefið leyfi til að spúa út andúð gagnvart því fólki sem hingað er komið í leit að skjóli. Fengu landsmenn ítrekað að skyggnast inn í þankagang þingmannsins en þó var það svo að ef hatrið varð of svart þá risu upp grandvarir flokksmenn og mótmæltu talsmátanum. Núverandi háskólaráðherra sagði það  „vægast sagt átakanlegt“ að vera í sama flokki og þingmaðurinn og að „fordómar og fáfræði einkenndu ummæli hans“. 

En nú er öldin önnur. Meirihluti kjörinna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins talar nú um ófremdarástand sem sligi kerfin okkar og það verði að stöðva komu fólks á flótta hingað til lands. Þar á meðal er áðurnefndur háskólaráðherra sem í umræðum í vor sagði fjölgunina ekki geta verið jafn mikla og raun beri vitni en tengdi álag á kerfin ekki við þá staðreynd að á síðasta ári fluttu nærri 18 þúsund manns hingað til lands til atvinnu og náms og að ferðafólk er langt á þriðju milljón ár hvert. 

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér að nýta sér neyð fólks til að mynda gjá milli heimafólks og fólks sem þarfnast verndar. Staðreyndin er sú að það geysar stríð í Evrópu sem hefur margfaldað fjölda fólks á flótta í álfunni. Íslensk stjórnvöld tóku meðvitaða ákvörðun um að skjóta skjólshúsi hvort tveggja yfir þann hóp sem og var tekin ákvörðun um það í tíð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í utanríkisráðuneytinu að veita fólki frá Venesúela skjól vegna vargaldar þar í landi. Fólki á flótta frá öðrum ríkjum hefur ekki fjölgað. 

„Ófremdarástandið“ í málaflokknum er vegna óstjórnar í ráðuneytinu sem hefur þurft að þola endalausar tilfæringar ráðherra sjálfstæðisflokksins undanfarin tíu ár svo yfirsýnin er engin. Það er ekki afgöngsku flóttakonunni og ungum syni hennar að kenna að staðan er eins og hún er. Mæðginum sem beðið hafa afhendingar vegabréfa frá því í maí sl. til að geta yfirgefið landið. Þau eru föst hér á landi, lenda á götunni í dag þar sem enginn veit hver á að afhenda þeim vegabréfin svo þau geti flúið óstjórnina. Fögur fyrirheit vinstri grænna og barnamálaráðherra framsóknar um vernd fyrir börn eru orðin tóm við þessar aðstæður. Þau bera jafna ábyrgð á þessari stöðu og verða bara að lifa með því. 

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram