Orðspor Íslands skiptir öllu þegar kemur að alþjóðlegum viðskiptum. Ráðamenn ræða það iðulega hversu mikilvægt það er að fá hingað til lands erlendar fjárfestingar enda er okkar innlendi markaður smár og vinnur smæðin gegn hagsmunum okkar. Þegar erlendir fjárfestar hugleiða komu inn á markaðinn eru nokkrir þættir skoðaðir öðru fremur; stöðugleiki gjaldmiðils, stöðugleiki í stjórnmálum, fjármálakerfið, réttarkerfið og síðast en ekki síst spillingarvarnir. Nú berast okkur þær fréttir að vinnuhópur OECD gegn mútum sé undrandi yfir hægagangi rannsóknar á Samherjamálinu og hefur yfirmaður vinnuhópsins, Drago Kos, sagt það nánast vandræðalegt að við séum eftirbátar Namibíu í þessum efnum. Krefst vinnuhópurinn jafnframt svara frá yfirvöldum á Íslandi vegna afskipta lögreglu af blaðamönnum sem fjallað hafa um málið. Segir Drago Kos viðbúið að einstaklingar og fyrirtæki sem liggi undir grun grípi til ýmissa ráða en það valdi sér áhyggjum að lögregluyfirvöld spili með.
Þetta eru skiljanlegar áhyggjur enda býsna óvenjulegt að lögregla sé að hafa afskipti af blaðamönnum sem skrifa um möguleg alþjóðleg mútubrot stórra aðila í íslensku viðskiptalífi. Fregnir hafa borist af handtökum, gæsluvarðhaldsúrskurðum, kyrrsetningum og fangelsisdómum yfir málsaðilum í Namibíu á sama tíma og héðan hafa borist fregnir af því hverjir hafa hlotið réttarstöðu sakborninga. Annað ekki. Héraðssaksóknari segir að hraði rannsóknar sé í beinu samhengi við fjármagn sem stjórnvöld skammta embættinu, það sé einfaldlega vanfjármagnað og það bitni á málshraða.
Þegar Samherjamálið var opinberað átti sér stað vinna á Alþingi við fjárlagafrumvarp ársins 2020. Við í Samfylkingunni lögðum þá til að auknu fjármagni yrði varið til embættis héraðssaksóknara vegna þessa yfirgripsmikla máls. Það þótti fjármálaráðherra alveg fráleitt og sagði að ef embættið þyrfti frekari fjármuni þyrfti það bara að koma til sín með slíka bón. Lét hann jafnframt hafa eftir sér að það væri sláandi og rót vandans í þessu tiltekna máli sem verið væri að afhjúpa hversu veikt og spillt stjórnkerfi væri í Namibíu. Drago Kos segir þessi ummæli einfaldlega röng því að sá sem bjóði mútur sé jafn ábyrgur og sá sem þiggur þær og segir hann jafnframt að hin þrúgandi þögn sem berist frá Íslandi varðandi rannsóknina sé vandamál enda virðist allt uppi á borðum í Namibíu en hula hvíli yfir rannsókn mála hér á landi.
Það er óeðlilegt að embætti sem annast rannsókn Samherjamálsins þurfi að fara bónarveg til formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra eftir nægu fjármagni. Embættið er vanfjármagnað, það tefur rannsókn málsins og getur valdið réttarspjöllum ofan á þá orðsporsáhættu sem augljós er.