Pólitískir fangar og frelsi fjölmiðla

Á mánudaginn var hélt hinn þekkti rannsóknarblaðamaður, Julian Assange, upp á sitt fimmta afmæli sem pólitískur fangi í einu rammgerðasta fangelsi heims. Þessi blaðamaður og pólitíski fangi er ekki í rammgirtu fangelsi í Rússlandi eða Belarús. Hann situr í Belmarch fangelsinu í London, fangelsi sem geymir hættulegustu fangana, þá sem dæmdir hafa verið fyrir hryðjuverk og fjöldamorð. Yfirvöld virðast þannig telja eðlilegt að hýsa blaðamann innan þessa fangelsis, fyrir það eitt að birta upplýsingar sem honum bárust. 

Blaðamaðurinn bíður framsals til Bandaríkjanna og dóms fyrir það eitt að hafa birt fréttir af stríðsglæpumBandaríkjahers í Afganistan og Írak, þar sem ráðist var á borgaraleg mannvirki. Birting fréttanna vakti eðlilega heimsathygli enda um stórfrétt að ræða. Blaðamaðurinn birti meðal annars myndbandsupptökur sem uppljóstrari kom til hans, uppljóstrarinn Chelsea Manning, sem seinna var dæmd í fangelsi fyrir njósnir vegna málsins en hefur síðar fengið sakaruppgjöf enda efnið talið eiga erindi við almenning. 

Blaðamaðurinn Julian Assange bíður þess að vera framseldur til Bandaríkjanna sem vill fá að rétta yfir honum fyrir birtinguna sem og fyrir að hafa brotist inn í tölvu og stolið þaðan gögnum í félagi við Chelsea Manning. Hann á yfir höfði sér 175 ára dóm, verði framsalið og málsmeðferð fyrir dómi í Bandaríkjunum að veruleika. 

Þessa dagana fordæma pólitískir fulltrúar og stjórnvöld um allan heim mannréttindabrot Rússa og Belarús á pólitískum föngum sem og það hvernig frelsi fjölmiðla er hverfandi í löndunum tveimur. Um leið og það er full ástæða til að fordæma þessi ríki fyrir þeirra stríðsrekstur og viðvarandi mannréttindabrot megum við ekki snúa blinda auganu að öðrum ríkjum heims. 

Julian Assange rannsóknarblaðamaður þarf á okkur að halda. Hann birti fréttir sem þóknast ekki bandarískum stjórnvöldum. Bretar hnepptu hann í varðhald og var réttað yfir honum vegna kröfu bandarískra stjórnvalda um framsal, en við málsmeðferðina naut hann ekki grundvallarréttinda um réttláta málsmeðferð þar sem hann fékk ekki að vera í beinu sambandi við lögmann sinn né fær hann nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Nú á svo, nema eitthvað óvænt komi upp á,  að framselja hann á næstu vikum til Bandaríkjanna vegna starfa hans við blaðamennsku. 

Það má ekki gerast. Ég vil skora á forsætisráðherra og menningarráðherra sem fer með málefni fjölmiðla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir framsal Assange til Bandaríkjanna sem og að beita sér fyrir því að honum verði sleppt þegar í stað. Ég skora á þær að gera þetta í þágu mannréttinda, í þágu lýðræðis og í þágu frjálsra fjölmiðla. Sömu áskorun bar ég fram á ÖSE þingi í Vancouver í vikunni. 

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram