Réttur barna til samveru með foreldrum

Birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. desember 2020

Á Alþingi er nú fjallað um frumvarp um fæðingar og foreldraorlof. Loksins er verið að hverfa aftur til þeirrar ákvörðunar sem tekin var af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, að lengja fæðingarorlof í tólf mánuði. Fyrstu mánuðir í lífi barns skipta sköpum um framtíð þess og velsæld. Sú tengslamyndun, sú umönnun og síðast en ekki síst líðan þeirra foreldra sem annast barnið getur haft varanleg áhrif á heilsu og þroska barnsins til framtíðar. Þess vegna skiptir máli að foreldrar geti svo best verður á kosið annast börn sín fyrstu mánuðina í sameiningu þegar því verður við komið.

Sú nýbreytni er í þessu frumvarpi að tekið er tillit til þeirra aðstaðna á margvíslegan hátt þegar einungis eitt foreldri getur nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs með barni sínu. Framseljanlegur réttur foreldris sem ekki nýtur umgengnisréttar er þannig tryggður svo barnið fái notið tólf mánaða fæðingarorlofs. Slíkar aðstæður geta verið uppi að annað foreldrið eigi hvorki rétt til töku fæðingarorlofs hér á landi né annars staðar, að annað foreldrið láti lífið á fyrstu 24 mánuðum barns án töku fæðingarorlofs, að öðru foreldrinu sé ógerlegt vegna sjúkleika eða fötlunar að taka fæðingarorlof, að öðru foreldri sé vegna nálgunarbanns óheimilt að annast barnið, að annað foreldrið sæti refsivist og fleiri tilvik. Með þessari nýbreytni er tryggt það sem mestu skiptir, að barnið njóti allt að tólf mánaða fæðingarorlofs sem sínu foreldri.

Heilmikið hefur verið rætt um það hvort foreldrum eigi að vera það frjálst hvernig mánuðirnir tólf skiptast. Ég hef fullan skilning á því að foreldrar geri allt sem hægt er til að láta skiptinguna koma best út í fjárhagslegu tilliti en þá er ekki hægt að horfa framhjá þeirri stóru mynd sem þetta mikla hagsmunamál varðar. Stóra myndin fjallar um jafnan rétt barna til að njóta samvista við báða foreldra sína sem og jafnan rétt foreldra til töku fæðingarorlofs með börnum sínum. Rannsóknir sýna að ríkulegt samband við báða foreldra hefur jákvæð áhrif á alhliða þroska barna. Eftir að feður öðluðust sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs hafa samskipti feðra og ungmenna batnað jafnt og þétt á Íslandi og eru nú meðal þeirra bestu í heimi. Jafnt fæðingarorlof og virk þátttaka beggja foreldra í umönnun og uppeldi barna bætir jafnframt stöðu einstæðra foreldra sem því miður búa frekar við fátækt og viðkvæmar félagslegar aðstæður. Líklegt er að góð samvinna milli foreldra, sem ekki búa saman, og þátttaka beggja í fæðingarorlofi, dragi úr fjárhagserfiðleikum hins einstæða foreldris þar sem sameiginleg þátttaka þeirra eykur líkur beggja foreldra á stöðugri atvinnuþátttöku og tekjuöflun. Það er í þágu allra barna að jafna tækifæri foreldra til samvista við börn sín og þátttöku á vinnumarkaði. Jafn réttur til fæðingarorlofs verður þannig ótvírætt í þágu barna til lengri tíma litið. 

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram