Réttur til frelsis

Hugmyndin um þrígreiningu ríkisvaldsins var ekki sprottin úr engu heldur á mati á bestu samfélagsgerð byggðu á reynslu. Hér er ekki ætlunin að fara yfir forsögu þeirrar stjórnskipunar heldur gerð tilraun til að útskýra mikilvægi hennar út frá nútíma aðstæðum. Sjálfstæðir dómstólar eru forsenda trausts réttarríkis, löggjafinn semur lögin sem dómarar innan dómstólanna dæma eftir án afskipta kjörinna fulltrúa eða annarra valdhafa. Niðurstaða dómstóla verður þannig að byggjast á innihaldi laga en ekki geðþótta stjórnmálanna sem sveiflast eftir persónum og leikendum.

Það hefur gustað nokkuð eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna sneri um fimmtíu ára gömlu fordæmi sem skapaðist við dóm Roe gegn Vade árið 1973. Margir hafa stigið fram og lýst ýmist andúð sinni eða velþóknun á þeirri túlkun dómsins á stjórnarskrá Bandaríkjanna að í frelsi einstaklings, eins og fyrirskipað er í stjórnarskránni, felist ekki frelsi einstaklings yfir eigin líkama sé um að ræða þungaða konu. Jafnvel hafa lögspekingar komið fram og lýst því yfir að þessi niðurstaða sé hárrétt þar sem hvergi sé minnst á orðið þungunarrof í bandarísku stjórnarskránni.

Nú skal það tekið fram lögfræðin er slík list að innan hennar tekst fólk daglega á um innihald þeirra setninga sem lögin bera með sér. Þess vegna er það svo að fram fer lagatúlkun og jafnvel lögskýringar þegar ekki eru skilgreind öll heimsins tilvik í orðanna hljóðan. Þetta er býsna mörgum ljóst og því kom það mér nokkuð á óvart að sjá löglærða einstaklinga tjá sig með þeim hætti um dóm Hæstaréttar að honum væri ekki ætlað að vera löggjafinn.

Ég er ekki viss um að nokkur sem um þetta hefur fjallað hafi ætlað dómnum að vera löggjafi. Þvert á móti var dómnum ætlað að túlka innihald skýrs frelsisákvæðis stjórnarskrárinnar sem og 14. viðauka sem hljóðar svo „ekkert ríki skal setja eða framfylgja neinum lögum er skerði réttindi og friðhelgi ríkisborgara Bandaríkjanna“. Um þetta snýst deilan; hvort stjórnarskráin inniberi heimild þungaðrar konu til að binda enda á þungun innan ákveðinna tímamarka. Fram að niðurstöðu dóms gátu ríki haft afskipti á öðrum og síðasta þriðjungi meðgöngu en eftir dóm Hæstaréttar mega ríkin nú hvert og eitt ákveða hver afdrif hinnar þunguðu konu verða, óháð lengd meðgöngu, lífi og heilsu konu, ástæðum þungunar eða aðstæðum almennt. Það skal hér eftir háð pólitískum vindum hvers ríkis.


Meirihluti Hæstaréttar var þannig ekki að afþakka hlutverk löggjafans, heldur að skýra innihald stjórnarskrárinnar þannig að það frelsi sem þar er tryggt eigi ekki við um þungaðar konur, bara annað fólk. Má jafnvel draga þá ályktun að þar hafi dómurinn verið að láta vinda þess meirihluta sem dóminn skipaði hafa áhrif á niðurstöðu máls.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram