Ríkið þarf að greiða fyrir þjónustuna

Kjördæmaviku þingmanna er nýlokið þar sem þingmönnum gefst kærkomið tækifæri til að ferðast um, ræða við fólk, heimsækja fyrirtæki, stofnanir og sveitastjórnarfólk. Þessi samskipti dýpka störf okkar mikið enda erum við í vinnu fyrir fólkið í landinu og eigum í störfum okkar að sinna því eins og okkur er frekast unnt. Það gerum við með því að fræðast um allt sem gerist hér á landi.

Það sem stendur uppúr eftir þessa viku er hversu viðkvæmir innviðir okkar eru. Hér ætla ég að fjalla um tekju- og verkefnaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga enda var það hvað mest áberandi í samtölum okkar við sveitastjórnarfólk um allt land hversu óheilbrigð skipting er á fjármunum til samneyslunnar.

Í mörg ár hefur verið bent á það hversu ríkið er duglegt við að færa fleiri verkefni úr höndum ríkis til sveitarfélaga. Það er í raun mjög góð hugmynd að færa nærþjónustu við íbúana undir ábyrgð sveitarfélaganna en þá verður að tryggja að viðunandi fjármagn fylgi með í kaupunum. Þau sveitarfélög sem uppfylla ekki lágmarksviðmið um fjárhagslega sjálfbærni og eru undir eftirliti eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga hefur fjölgað úr 12 í 30 frá árinu 2019 og það eitt sýnir svart á hvítu að það er eitthvað verulega bogið við tekjuskiptinguna og þar ber ríkið ábyrgð.

Ein helsta örsökin fyrir þessari stöðu er vanfjármögnun vegna þjónustu við fatlað fólk. 

17 milljarða kr. uppsafnaður halli blasir við okkur í málaflokki fatlaðs fólks frá því að málaflokkurinn var fluttur til sveitarfélaganna fyrir áratug. Sífellt fleiri verkefni eru svo samþykkt af Alþingi, síðast nauðsynlegar umbætur á þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, svokölluð NPA þjónusta, sem samþykkt var einróma á Alþingi þrátt fyrir kostnaðarútreikninga sem voru ekki í tengslum við raunveruleikann. Fjallað var um að mögulega væri um að ræða brot á lögum um opinber fjármál sem á að tryggja að fjárhagslegt mat sé lagt á lagafrumvörp. Á því og vanfjármögnun bera stjórnvöld ábyrgð. 

En ríkisstjórnin skilar auðu. Þau láta eins og þetta sé bara ekki þeirra mál heldur hafi sveitarfélögin gert eitthvað rangt með þjónustu sinni við þennan viðkvæma hóp. En málaflokkur fatlaðs fólks er ekkert einsdæmi og er nærtækast að nefna þjónustu við eldra fólk sem dvelur á hjúkrunarheimilum en á síðasta kjörtímabili neyddust sveitarfélög til að skila af sér rekstri hjúkrunarheimila vegna ófullnægjandi fjármagns frá ríkinu með þjónustunni. Ekkert fjármagn er í sjónmáli fyrir uppbyggingu frekari hjúkrunarheimila og álagið á Landspítala og önnur sjúkrahús eykst.


Það þarf að leiðrétta tekjuskiptinguna milli ríkis og sveitarfélaga og það þarf að tryggja að þjónusta við borgarana séu fjármögnuð með fullnægjandi hætti. 

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram