Ríkir spilling á Íslandi?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. janúar 2021

Ólík svör berast við ofangreindri spurningu eftir sjónarhorni svarandans. Sum lönd tróna jú neðar á listanum og því virðast svör stjórnmálafólks verða ólík eftir því hvaða ríkjum þau vilja að Ísland skipi sér í hóp með.

Alþjóðleg samtök gegn spillingu, Transparency International, birtu í vikunni niðurstöður árlegrar mælingar á spillingu í flestum löndum heims. Samtökin mæla spillingu í opinbera geiranum, stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptalífinu og byggist mælingin á áliti sérfræðinga sem og aðila í viðskiptalífinu. Samtökin eru með öllu óháð og ekki rekin í hagnaðarskyni heldur til að berjast gegn spillingu og óréttlæti til varnar almenningi um allan heim. Í þágu almannahagsmuna gegn sérhagsmunum.

Ísland sat á toppi listans yfir þau ríki hvar minnsta spillingu var að finna fyrir fimmtán árum en nú er staðan því miður önnur og verri. Við höfum hrapað niður listann og sitjum nú í 17. sæti, langt fyrir neðan önnur ríki Norðurlanda og Norður-Evrópu. Þetta gerist þrátt fyrir aukið regluverk og auknar skuldbindingar Íslands til varnar spillingu en úttektir sýna því miður að íslensk stjórnvöld virðast ekki taka á þessu af nægri alvöru.

Það kom líka berlega í ljós á Alþingi í vikunni þegar Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokks, út í afstöðu hans til sífellt verri stöðu Íslands í þessum málum. Því miður báru svör formanns Sjálfstæðisflokksins með sér að hann telur skýrslur sem þessar, sem og niðurstöður GRECO, samtaka ríkja Evrópuráðsins gegn spillingu, ekkert til að hafa áhyggjur af. Segir þær ekki byggja á raunverulegum dæmum heldur bara „óljósri tilfinningu“. Svo virðist sem formaður Sjálfstæðisflokksins telji það engin áhrif hafa á íslenskt atvinnulíf og efnahag þjóðar að hér aukist spilling jafnt og þétt á valdatíma hans, en þá er rétt að benda honum á að við ákvörðun um fjárfestingar erlendra aðila hér á landi er einmitt horft til stöðu ríkja er varðar spillingu. Ef ætlunin er að standast samanburð við nágrannaríki okkar þá er óboðlegt með öllu að hunsa viðvaranir eins og þær sem árlega berast okkur um síaukna spillingu í opinberu kerfi. Stundarágóði sérhagsmunaafla mun þannig verða samfélaginu mjög dýrkeyptur til lengri tíma því jafnvel þau öfl sem þannig njóta ylsins um tíma munu á endanum tapa. Allt samfélagið tapar trúverðugleika á altari sérhagsmunagæslu Sjálfstæðisflokksins. Rannsóknir sýna að spilling er illvíg meinsemd sem ógnar lýðræðinu, grundvallarmannréttindum og lífsgæðum almennings. Spilling grefur undan trausti á stjórnvöldum og stofnunum og ber stjórnvöldum allra landa að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að bregðast við af alvöru en ekki léttúð.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram