Saklaus uns?

Réttarríkið skapar grundvöll samfélagsins. Að allir séu jafnir fyrir lögum, að enginn sé dæmdur til refsingar án sönnunar á broti og ekki síst rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar.

Undanfarnar vikur hafa margir lærðir og leikir fjallað um þennan grundvallarrétt sem ekki má skerða. Það er mikilvægt að við gefum ekki afslátt á þessum rétti því ekki viljum við að saklaust fólk sitji bakvið lás og slá eða að sá sem misgert er við fái ekki notið verndar.

Já, það er í síðarnefnda tilvikinu sem skórinn kreppir.

Í rannsókn sem gerð var á afdrifum kynferðisbrotamála í réttarvörslukerfinu kom í ljós að einungis lítill hluti kynferðisbrota hér á landi er kærður. Jafnframt kom í ljós að örlítill hluti þeirra mála sem kærð eru ná inn til dómstóla og svo er aðeins sakfellt í 13% mála. Dómarar landsins fá því einungis lítinn hluta mála inn á sitt borð og má segja að með því sé verið að takmarka möguleika dómara á að sjá allar útgáfur af hegðun sakborninga fyrir og eftir kynferðisbrot og ekki síður hegðun brotaþola.


Af störfum mínum sem réttargæslumaður brotaþola get ég fullyrt að það leikur sér enginn að því að leita til neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota og/eða kæra kynferðisbrot. Það er ekkert gamanmál að mæta að nóttu eða degi, þurfa síendurtekið að greina í smáatriðum frá hvað átti sér stað fyrir hjúkrunarfræðingi, lækni og lögreglu, fara í nákvæma læknisskoðun, í vettvangsskoðun, mæta á lögreglustöðina, mæta aftur til að bregðast við orðum sakbornings eftir skýrslutöku, bíða milli vonar og ótta um hvað mun eiga sér stað, óttast það að mæta sakborningi eða vinum sakbornings og fjölskyldu, óttast almenningsálitið, sami vinahópur, sami skóli, sami vinnustaður. Það að fólki sé í alvöru að detta það í hug að þolendur kynferðisofbeldis leiki sér að því að ganga þann veg að upplýsa um að brotið hafi verið á þeim er með hreinum ólíkindum. Niðurstaða í þeim örfáu málum sem komast á leiðarenda næst einu til þremur árum eftir atburð. Þessi staðreynd gerir það að verkum að færri kæra brot en þyrftu. Segja má að þessi langi biðtími eftir réttlæti, sem stjórnvöld bjóða brotaþolum upp á, sé sérstakt brot.

Hvar stendur réttarríkið þegar kemur að brotaþolum?

Það er rétt að enginn skal dæmdur til refsingar án þess að sekt sé sönnuð en að láta eins og allir þessir brotaþolar fari með fleipur vegna þess að sakborningur hefur ekki verið sakfelldur þegar brot kemur fram í dagsljósið leiðir til þeirra ályktunar að réttarríkið verndi ekki brotaþola. Hinn sjálfkrafa efi um sannleiksgildi frásagnar verður ofan á. Við viljum ekki dómstól götunnar, en við ættum þá að rísa upp og ræða þá eilífðar bið eftir réttlæti sem brotaþolar mega sæta. Þeim biðlista verður að útrýma.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram