Sam-félag

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. nóvember 2020

Að gera hlutina saman er svo miklu betra en að sitja einn að málum. Við í stjórnarandstöðunni á Alþingi höfum mikið talað fyrir samráði og hvatt ríkisstjórnina til þess að efna þau orð í stjórnarsáttmála að efla Alþingi og auka samráð milli flokka. Því miður hefur samráðið þar helst falist í því að ráðherrar senda okkur boð á kynningarfundi sína og kalla það samráð en ég held að þar megi gera betur.

Að sama skapi hef ég talað mikið fyrir hvers konar samfélagsþátttöku og mikilvægi hennar. Það að taka þátt í samfélagsverkefnum auðgar hvort tveggja líf þátttakenda sem og samfélagið allt, hvort sem um er að ræða þátttöku í hverfisráðum, íþróttafélögum, kórastarfi, leikhópum eða stjórnmálaflokkum.

Frá því í síðasta hruni hefur umræða um stjórnmál og stjórnmálaflokka því miður verið ansi neikvæð. Við höfum horft á tortryggni aukast út í það lýðræðislega starf sem unnið er inni í stjórnmálaflokkum og jafnframt fylgst með trausti á stjórnmálum og kjörnum fulltrúum á þingi og sveitarstjórn minnka.

Með aukinni þátttöku almennings í hvers kyns stjórnmálastarfi er ég handviss um að virðingin og traustið til þessa hópverkefnis sem stjórnmálastarf er eykst. Það er nefnilega mjög gefandi og skemmtilegt að láta sig samfélagsmál varða, en það er einmitt það starf sem innt er af hendi í stjórnmálaflokkum. Þar fer fram lýðræðisleg umræða um allt mögulegt er varðar samfélag okkar innan lands sem utan.

Innan Samfylkingarinnar starfa fjölbreyttar málefnanefndir en einnig ungliðahreyfing, hreyfing eldri borgara, kvennahreyfing og jafnvel ferðafélag svo eitthvað sé nefnt. Það sem sameinar þessa ólíku hópa eru hugsjónir jafnaðarmanna, sem eiga rætur langt aftur í tímann. Jafnaðarmannahugsjónin er grunnurinn að öllu okkar starfi, nútíminn er svo sá veruleiki sem við vinnum í með jafnaðarmannahugsjónina að leiðarljósi fyrir framtíðina. Það er þetta sem gerir samstarf grasrótarinnar svo nærandi. Það er samveran og samvinnan að þeim málefnum sem við viljum setja á oddinn hverju sinni sem gerir þetta starf svo mikilvægt. Hver einasti hlekkur starfsins skiptir jafn miklu máli, hvort sem um er að ræða skipulagningu og þátttöku á fundum, útbreiðslu kosningaáherslna í aðdraganda kosninga, kaffiuppáhellingar og vöfflubakstur, samtal í málefnastarfi eða það að standa í pontu Alþingis eða sveitarstjórnum. Við skiptumst á og gerum þetta saman í fjölbreyttum félagsskap.

Hvort sem fólk aðhyllist stefnu Samfylkingarinnar eða annarra stjórnmálaflokka vil ég hvetja fólk til þátttöku. Fjarfundarformið er komið til að vera og þannig geta líka þeir sem eiga erfiðara með að komast að heiman tekið fullan þátt í starfi stjórnmálaflokka. Látum okkur samfélagið varða og tökum þátt í því.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram