Í dag göngum við til Alþingiskosninga um allt land. Flokkarnir hafa kynnt stefnumál sín undanfarnar vikur, hitt og hringt í kjósendur og drukkið ógrynni bolla af kaffi.
Við í Samfylkingunni höfum með stolti kynnt okkar áherslupunkta sem lúta að því að jafna kjör almennings í landinu. Við viljum byggja hér upp barnabótakerfi að norrænni fyrirmynd enda mun það koma öllu samfélaginu til góða. Önnur ríki hafa fyrir löngu áttað sig á mikilvægi alvöru barnabótakerfis en því miður hefur jafnt og þétt verið dregið úr þessum stuðningi hér á landi. Í okkar tillögum fær barnafólk með meðaltekjur og tvö börn á framfæri 650 þúsund krónur á ári eða 54 krónur í hverjum mánuði í barnabætur. Enginn annar flokkur býður viðlíka kjarabætur fyrir venjulegt barnafólk né hafa aðrir flokkar lagt fram hvort tveggja útfærðar og fjármagnaðar tillögur í þágu fjölskyldna í landinu.
Það eru einnig aðrir hópar í samfélaginu sem hafa jafnt og þétt verið að dragast aftur úr en fólk sem fær greiddan lífeyri, hvort sem er elli- eða örorkulífeyri, hefur þurft að þola óþolandi skerðingar vegna atvinnu- og lífeyristekna sem hafa dæmt stóran hóp til fátæktar. Við viljum hækka grunnlífeyrinn upp að lágmarkslaunum og draga verulega úr skerðingum svo hægt sé að auka virkni og lífsgæði.
Vanfjármögnun heilbrigðiskerfisins hefur líka bitnað harkalega á sjúklingum og fjölskyldum þeirra um allt land en einnig á heilbrigðisstarfsfólki. Biðlistaómenning ríkisstjórnarinnar er ekki náttúrulögmál heldur pólitísk ákvörðun um að leggja mun lægri fjárhæð hlutfallslega til heilbrigðiskerfisins en þekkist td. á hinum Norðurlöndunum og viljum við í Samfylkingunni gera mun betur með auknu fjármagni, betra skipulagi og minni kreddum.
Til þess þarf nýja ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem þorir að sækja tekjur til þeirra sem geta. Stóreignarskatt sem leggst á ríkasta 1% þjóðarinnar eða fólk sem á eignir yfir 200 milljónir skuldlaust. 1250 krónur á mánuði af hverri milljón yfir skuldlausum 200 milljónum eru hófstilltir skattar og sanngjarnir. Þá leggjum við til að auðlindagjöld verði hækkuð á 20 stærstu útgerðirnar til hagsbóta fyrir almenning, eigendur auðlindarinnar. Það munar um þessa fjármuni við rekstur samfélagsins, svo sem á heilbrigðis- og velferðarkerfinu. Kerfi sem grípur allar fjölskyldur í landinu.
Jöfnuður er ávísun á gott samfélag, því við eigum öll að hafa jöfn tækifæri til að lifa mannsæmandi lífi og láta drauma okkar rætast. Um það snýst jafnaðarstefnan fyrir henni berjumst við í Samfylkingunni þannig að virðing fyrir fólki og náttúru verði í hávegum höfð hjá nýrri og betri ríkisstjórn fyrir almenning á Íslandi.