Sjáið þið ekki veisluna?

Við höfum það býsna gott á Íslandi, eða hvað? Hér ríkir friður, jafnréttismálin í hávegum höfð, heilbrigðismálum er sinnt af afbragðs starfsfólki og atvinnuleysi er lítið. Þannig má segja að ef við berum okkur saman við öll ríki heimsins þá séu við í ágætis málum. Að meðaltali að minnsta kosti, á sumum sviðum.

En að hverju er stefnt?

Verðbólga á Íslandi er nærri 10% og stýrivextir standa í 8.75%. Slíkar tölur eru margfaldar á við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar og því hefur viðbragða stjórnvalda verið beðið með nokkurri eftirvæntingu. Fyrir helgi mætti forsætisráðherra fjölmiðlum eftir ríkisstjórnarfund og sagði ríkisstjórnina hafa verið að hugleiða aðgerðir gegn verðbólgu og frekari hækkun stýrivaxta undanfarna daga. Sagði hún að aðgerðirnar yrðu kynntar eftir helgi sem svo í fyrradag undir lúðrablæstri stjórnarþingmanna. Talað var um að til viðbótar við „skýra stefnu“ sem birtist í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar væri nú verið að ráðast í „enn frekari aðgerðir“ til að vinna gegn verðbólgu og frekari vaxtahækkunum.   

Í gær birtist svo nefndarálit stjórnarflokkanna við sömu fjármálaáætlun til næstu fimm ára og þar má ekki sjá eina einustu breytingu við þeirri fjármálaáætlun sem allir umsagnaraðilar höfðu gagnrýnt harðlega, allt frá fjármálaráði til Þroskahjálpar, frá Samtökum atvinnulífs til ASÍ og allt þar á milli. Er beinlínis lagt til að fjármálaáætlun verði samþykkt óbreytt, engar tillögur ríkisstjórnar frá því deginum áður eru færðar inn, enda er ekki um raunverulegar tillögur að ræða heldur endurfluttar hugmyndir um agnarlítið ekki neitt.

Áréttað er í nefndarálitinu að verðbólgumarkmiði Seðlabankans, um 2.5% verðbólgu verði ekki náð fyrr en í fyrsta lagi 2026 en í síðustu áætlun frá því í fyrra hafði verði vonast til að það næðist strax á næsta ári. Þetta hefur veruleg áhrif á hagsmuni alls almennings á Íslandi, sem þarf að greiða af húsnæðis- og námslánum, yfirdrætti og bílalánum og þarf að eiga til hnífs og skeiðar frá mánuði til mánaðar.

Stjórnarflokkana skortir kjark til alvöru tekjuöflunar fyrir ríkissjóð en telja betur fara á því að hækka gjaldtöku á einstaklinga óháð efnahag þeirra. Á sama tíma má ekki ræða að sækja tekjur þangað sem hægt er, til að mynda til banka sem hagnast sem aldrei fyrr á svimandi háum vöxtum og þjónustugjöldum eða stórútgerðar sem vinnur dómsmál um kvóta sem var hægt að verðleggja á heilan milljarð en ekki er hægt að verðleggja þegar á að sækja arð almennings af þessari sömu auðlind.

Með öðrum orðum. Flugeldasýning ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttir reyndist vera púðurskot. Stjórnvöld spyrja hvort almenningur sjái ekki veisluna og framtíðarsýnin takmarkast við að halda laskaðri ríkisstjórn saman.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram