Fyrir helgi sendi þverpólitískur hópur alþingismanna frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á bandarísk stjórnvöld að fella niður ákæru á hendur rannsóknarblaðamanninum og stofnanda Wikileaks, Julian Assange. Assange hefur verið innilokaður ásamt hryðjuverkamönnum og morðingjum í hinu alræmda Belmarsh fangelsi í tvö ár vegna ákæru sem gefin var út á hendur honum en hann hafði þá í sjö ár dvalið í stofufangelsi í sendiráði Ekvador í London. Sakarefnið eru njósnir, að hafa opinberað stríðsaðferðir bandaríkjahers og birt gögn sem lekið hafði verið til Wikileaks. Áður en til handtökunnar kom, hafði Barack Obama náðað Chelsea Manning, sem setið hafði í fangelsi í tæp sjö ár fyrir að leka gögnunum til Wikileaks.
Julian Assange á yfir höfði sér allt að 175 ára fangelsi verði hann fundinn sekur um að hafa birt gögn sem sýndu umheiminum að starfsaðferðir bandaríkjahers í Írak og Afganistan voru ekki í samræmi við alþjóðalög. Heimsbyggðin stóð á öndinni yfir þessum uppljóstrunum þar sem fylgst var með samtali hermanna og slátrun þeirra á almennum borgurum á götum úti.
Yfirlýsing íslenskra þingmanna með áskorun um niðurfellingu ákærunnar er ekki einsdæmi því áður hafa þingmannahópar annarra ríkja gert slíkt hið sama. Er þetta liður í þrýstingi á bandarísk stjórnvöld að virða tjáningarfrelsi og rétt fjölmiðla til að birta upplýsingar í þágu lýðræðis. Á tímum stöðugrar fréttaveitu óformlegra fjölmiðla og fréttaóreiðu er mikilvægt að staðinn sé vörður um fjölmiðla sem þora, sem ekki birta eingöngu það sem ríkjandi stjórnvöldum er þóknanlegt heldur allt það sem varðar almenning. Það að eitt voldugasta ríki heims beiti viðlíka aðferðum ætti að fá stjórnvöld allra landa til að rísa upp og mótmæla. Þetta ástand er því miður ekki einsdæmi, því við sjáum viðlíka í Norður Kóreu, Rússlandi og Hvíta Rússlandi en Bandaríkin hafa löngum þótt standa þeim ríkjum framar þegar kemur að lýðræðinu. En ofsóknir á hendur stofnanda Wikileaks benda því miður til annars. Það réttarbrot sem Assange hefur mátt þola er ofboðslegt. Heilsu hans hefur hrakað verulega og almenn mannréttindi hans, sem ódæmds manns sem haldið er bakvið lás og slá árum saman, alvarlega brotin. Er því óhætt að fullyrða að þarna eigi sér stað hvort tveggja alvarleg aðför að mannréttindum hans sem og aðför gegn frjálsum fjölmiðlum og lýðræði. Þeir sem vilja kynna sér tilurð málsins geta meðal annars lesið sér til í Stundinni, en þar er farið yfir málið og grundvöll saksóknar með aðstoð íslensks margdæmds afbrotamanns sem viðurkennt hefur að hafa blekkt bandarísk stjórnvöld í málinu. Íslensk stjórnvöld ættu að stíga fram nú í kjölfar yfirlýsingar þingmannahópsins og veita Julian Assange vernd á Íslandi. Það væri sómi að því.