Skilja stjórnvöld ekki störf listafólks?

Það hefur mikið mætt á starfsfólki Vinnumálastofnunar undanfarin misseri. Við vinnu í velferðarnefnd Alþingis varð ég þess áskynja að skilningur kerfisins á starfi listamanna virðist nokkuð takmarkaður. Vilji var til að taka tillit til sviðslistafólks og þess starfsfólks sem fæst við tengd störf sem missti lífsviðurværi sitt á augabragði vegna heimsfaraldurs. Vilji þings var að tryggja þessum hópi stuðning eins og öðrum sem urðu fyrir tekjufalli en þegar mánuðirnir liðu reyndust fá þeirra hafa fengið lausn sinna mála. Þröskuldarnir í kerfinu urðu að ókleifum múrum, flækjustigin urðu að þéttofnu neti sem fáir komust í gegnum og umsóknir listafólks lentu oftar en ekki neðst í bunkunum á yfirfullum skrifborðum starfsfólks Vinnumálastofnunar.

Spurningin „já, en hvar vinnur þú“ reyndist oftar en ekki hanga í loftinu. Lítill skilningur var á því að listafólk starfar oft á mörgum stöðum í ólíkum verkefnum sem ekki hafa skilgreint starfshlutfall. Hálfur dagur hér, tveir dagar þar og svo þriggja mánaða verkefni auk sýninga á þriðja staðnum. „Hvar vinnur þú og í hvaða starfshlutfalli“ kallaði á löng og flókin svör listafólks sem oftar en ekki var svarað með setningunni „já, en það getur enginn lifað á þessum launum“. Þar sem kröpp kjör listafólks eru þeirra veruleiki en ekki viðurkennd í viðmiðunartölum ríkisskattstjóra þá var umsóknum þeirra oftar en ekki synjað á þeim grundvelli að enginn gæti lifað á svo lágum launum.

Fyrir helgi barst frétt um að íranska tónlistarkonan Elham Fakouri, sem hefur verið búsett hér í þrjú ár, hafi fengið synjun á umsókn sinni um áframhaldandi dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi. Elham hefur lokið námi við Listaháskóla Íslands og bauðst starf í sinni sérgrein sem er persnesk tónlist og er hljóðfærið hennar Ney flauta.

Lög um útlendinga gera ekki ráð fyrir að listamenn vilji setjast hér að og sinna sinni listgrein. Sjálfstæðir listamenn, sem ekki eru EES borgarar, hafa þurft að þola mikla þrautagöngu við umsókn um leyfi til dvalar hér á landi og hefur kerfið ekki viðurkennt þeirra sjálfstæða starfsgrundvöll. Þau hafa því sótt um dvöl vegna sérfræðistarfa hjá ákveðnum aðila hér á landi líkt og hin íranska tónlistarkona sem nú hefur fengið synjun á dvalarleyfi. Sjálfstæðir listamenn, sem starfa á heimsvísu en vilja búa hér á landi hafa ekki einn vinnuveitenda hérlendis heldur eru sínir eigin vinnuveitendur með tekjur af ástundun sinni í listum víðs vegar um heim. Kerfið spyr aftur sem fyrr „já, en hvar ertu að vinna“. Listamanninum er þannig gert að sanna það fyrir íslenskum stjórnvöldum að ekki hafi annar listamaður fengist í starfið, eins og um hvert annað starf væri að ræða. Ef það tekst ekki er umsókn synjað.   

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram