Það hefur verið nöturlegt að fylgjast með því allt þetta ár hvernig framkvæmd ákvörðunar heilbrigðisráðherra hefur mislukkast, um að flytja skimanir og rannsóknir á legháls- og brjóstakrabbameini frá Krabbameinsfélaginu til hinna ýmsu stofnana hérlendis sem erlendis. Ákvörðunin var því miður illa ígrunduð og undirbúningur ófullnægjandi af hálfu stjórnvalda og því hefur ástandinu verið lýst sem aðför að heilsu kvenna. Ítrekað var þingheimi svarað þannig að þetta væri allt samkvæmt áætlun og gert til að tryggja öryggi kvenna en jafn oft komu fram sérfræðingar í kvensjúkdómum, krabbameinslækningum og frumurannsóknum til að benda á að svo væri ekki, að ófremdarástand væri uppi og við því þyrfti að bregðast. Þúsundir kvenna skrifuðu undir áskorun til heilbrigðisráðherra um að láta rannsókn á teknum sýnum fara fram hér á landi í nýjum tækjum Landspítala en ekki á danskri rannsóknarstofu sem samið hafði verið við. Eftir mikla baráttu fagfólks og kvenna um allt land, var tekin ákvörðun um að færa sýnatökuna aftur til Íslands. Fjölmargir læknar höfðu bent á mikilvægi þess að sýnin yrðu rannsökuð hér svo hægt væri að fylgjast með þróun frumubreytinga og eiga bein samskipti við rannsakendur. Afleiðingar þessa eru að dregið hefur úr heimsóknum kvenna í leghálsskimanir. Traust þeirra á heilbrigðiskerfinu virðist hafa minnkað verulega og er það alvarlegt því tölur sýna að líkast til hafi skimanir hjá Leitarstöðinni bjargað lífi á fimmta hundrað kvenna undanfarna áratugi.
Í síðustu viku fengum við svo fregnir af stöðu mála á Landspítala varðandi brjóstaskimanir, sem fram til síðustu áramóta var einnig sinnt á Leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Áratugastarfi félagsins var þar með hætt, en árangur skimunar í brjóstum var ótvíræður. Kom fram að 1.200 konur bíða niðurstöðu brjóstaskimana og hefur ekki verið lesið úr myndum í rúman mánuð. Er það vegna læknaskorts en læknarnir tveir sem ráðnir höfðu verið í verkið sögðu upp vegna ófullnægjandi aðstæðna á spítalanum. Höfðu þeir að sögn ítrekað bent á það en því ekki svarað. Sviðsstjóri á rannsóknarsviði spítalans segir þetta „ekki gott inlegg í umræðuna um krabbameinsskimanir“, verkefnið sé flókið og taki lengri tíma en búist var við. Evrópsk viðmið segja að lesa eigi úr myndum innan tíu daga en hér bíða myndir í bunkum í amk mánuð og konur um allt land fá engin svör. Það er ömurlegt til þess að hugsa að enn í dag, níu mánuðum eftir að þessar skimanir voru fluttar frá Krabbameinsfélaginu og nærri þremur árum eftir að ákvörðun um flutninginn var tekin sé þessi heilbrigðisþjónusta við konur enn í óvissu. Er því ekki úr vegi að spyrja hvort það geti verið að heilsa kvenna skipti stjórnvöld svona litlu máli.