Söguskýringin stenst ekki

Fjölbragðaglíma ríkisstjórnarflokkanna við söguskýringar á gengi sínu í sveitastjórnarkosningunum um síðustu helgi er athyglisverð. Samkvæmt söguskoðun forsætisráðherra var stjórnarandstöðuflokkunum á Alþingi refsað fyrir almenn leiðindi í garð bankasöluflokkanna og jafnframt er skoðun forsætisráðherra að hennar eigin flokkur hafi aðallega tapað á meirihlutasamstarfi sínu við sömu flokka í Reykjavík. Ástæða hrakfara Vinstri grænna í kosningunum um liðna helgi sé þannig ekki hjá forystunni sem velur að standa með Sjálfstæðisflokknum vegna bankasölunnar heldur alfarið hjá frambjóðendunum flokksins um allt land.

Förum aðeins yfir stöðuna

Ef við berum saman árangur Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem hvað harðast gagnrýndi bankasöluna á Alþingi má sjá að í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins bíður flokkur forsætisráðherra mikinn ósigur. Í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Mosfellsbæ þar sem flokkarnir bjóða fram undir eigin merkjum fær Samfylkingin 11 fulltrúa en Vinstri græn einn fulltrúa. Jafnvel Sósíalistar, sem buðu aðeins fram í Reykjavík fá tvöfalt fleiri kjörna fulltrúa en Vinstri græn. Þannig fá Vinstri græn færri atkvæði í Reykjavík, Mosfellsbæ, Hafnarfirði og Kópavogi en Sósíalistaflokkurinn í Reykjavík einni, flokkur sem ekki á fulltrúa á Alþingi en hefur vissulega haft hátt á Austurvelli undanfarnar vikur í mótmælum vegna aðferða ríkisstjórnarflokkanna við sölu á hlut almennings í Íslandsbanka.

Ef við skoðum svo landið í heild þá má sjá að Samfylkingin fær alls 26 fulltrúa kjörna undir eigin merkjum en Vinstri græn 8. Ef taka á með framboð þar sem Samfylkingin er með öðrum flokkum eru fulltrúarnir 53.  Á þessu er því ekki á nokkurn hátt hægt að taka undir söguskoðun formanns vinstri grænna, sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa svo endurtekið í umræðuþáttum helgarinnar, þ.e. að þeir flokkar sem hvað hæst gagnrýndu aðferðir ríkisstjórnarflokkanna við sölu á hlut almennings í Íslandsbanka hafi tapað í sveitarstjórnarkosningunum um síðustu helgi. Þvert á móti var þeim flokkum sem hvað harðast tóku til varnar, Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum refsað. Þessir flokkar misstu fylgi um allt land, mismikið en báðir þónokkuð á sama tíma og samstarfsflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, sem að einhverju leyti tók undir gagnrýnina með varaformann flokksins í fararbroddi vann góðan sigur víða um land.

Hinn rúmlega hundrað ára gamli flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, er áfram stærsti flokkurinn með flesta kjörna fulltrúa í sveitastjórnum landins en aldrei í sögu flokksins hefur honum gengið jafn illa í sveitastjórnarkosningum. Sá flokkur er því langt í frá sigurvegari, heldur þvert á móti má segja að flokkurinn þurfi á verulegri innri skoðun að halda.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram