Á Alþingi í vikunni kynnti forsætisráðherra tillögu sína um að fjölga ráðherrum um einn, fjölga ráðuneytum um tvö og breyta svo málaflokkum 10 ráðuneyta af 12. Þingmenn stjórnarandstöðu gerðu sitt til að laða fram svör við því hver tilgangurinn væri með þessari stærstu uppskiptingu á Stjórnarráðinu í áratugi, en lítið var um svör um tilganginn. Svo virðist nefnilega vera sem hugmyndin að þessari uppstokkun hafi fæðst á síðustu vikum. Vissulega hafði Framsóknarflokkurinn nefnt það í kosningabaráttunni að vilji stæði til að búa til eitt stórt innviðaráðuneyti, þar sem húsnæðismál yrðu færð inn í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið ásamt skipulagsmálum, en þá áttu held ég fáir von á að innviðir fjarskipta, svo dæmi séu tekin, yrðu flutt úr innviðaráðuneytinu þar sem þeir hafa verið áratugum saman og yfir í háskóla- og nýsköpunar. Held ég að sá ráðherra sem nú er að skapa það ráðuneyti frá grunni hafi ekki einu sinni haft hugmynd um að svo yrði, en það ráðuneyti fæst nú við vinnu vegna sölu Símans á Mílu.
Þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar að breyta svona miklu mun ekki kosta milljónir eða tugi milljóna heldur hundruð milljóna. Lýsti forsætisráðherra því yfir í umræðu á Alþingi að kostnaður við það eitt að búa til tvö ný ráðuneyti yrði líklega um 450 milljónir króna, þessi fjárhæð inniber ekki kostnað við flutning verkefna milli ráðuneyta. Fyrir 450 milljónir má gera margt í þágu almennings, t.d. er þetta helmingur af því sem það myndi kosta að tryggja öryrkjum stuðning nú fyrir jólin skatta- og skerðingarlaust eins og gert var í fyrra.
Nú má ekki misskilja orð mín svo að ég telji að ráðuneytum megi aldrei breyta, alls ekki, enda geta samlegðaráhrif af því að færa líka málaflokka undir eitt þak orðið til mikils hagræðis og hagsbóta fyrir almenning. En vandinn við þessa stóru uppstokkun virðist vera sá hversu illa ígrundað þetta er. Þegar gerð var breyting á Stjórnarráðinu í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, var það gert í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem mælti eindregið með fækkun ráðuneyta. Fækkun svo hægt væri að fækka hindrunum og auka samvinnu þar sem hennar er þörf. Farið var í mikla undirbúningsvinnu fjölmargra starfshópa innan stjórnkerfisins svo þessi breyting kæmi best út fyrir almenning og starfsfólk ráðuneyta. Var sérstaklega tekið fram að grundvöllur þess hversu vel tókst til væri sú staðreynd að breytingin væri unnin í nánu samráði við starfsfólk Stjórnarráðsins sem best þekkir til innri starfa ráðuneytanna. Hlutverk Stjórnarráðsins er að þjónusta almenning og það verður að vera alveg skýrt í hugum almennings hvert á að leita og hvernig þessi uppstokkun á að þjóna almenningi.