Þarf almenningur fleiri ráðherra?

Á Alþingi í vik­unni kynnti for­sæt­is­ráðherra til­lögu sína um að fjölga ráðherr­um um einn, fjölga ráðuneyt­um um tvö og breyta svo mála­flokk­um 10 ráðuneyta af 12. Þing­menn stjórn­ar­and­stöðu gerðu sitt til að laða fram svör við því hver til­gang­ur­inn væri með þess­ari stærstu upp­skipt­ingu á Stjórn­ar­ráðinu í ára­tugi, en lítið var um svör um til­gang­inn. Svo virðist nefni­lega vera sem hug­mynd­in að þess­ari upp­stokk­un hafi fæðst á síðustu vik­um. Vissu­lega hafði Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn nefnt það í kosn­inga­bar­átt­unni að vilji stæði til að búa til eitt stórt innviðaráðuneyti, þar sem hús­næðismál yrðu færð inn í sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneytið ásamt skipu­lags­mál­um, en þá áttu held ég fáir von á að innviðir fjar­skipta, svo dæmi séu tek­in, yrðu flutt úr innviðaráðuneyt­inu þar sem þeir hafa verið ára­tug­um sam­an og yfir í há­skóla- og ný­sköp­un­ar. Held ég að sá ráðherra sem nú er að skapa það ráðuneyti frá grunni hafi ekki einu sinni haft hug­mynd um að svo yrði, en það ráðuneyti fæst nú við vinnu vegna sölu Sím­ans á Mílu.

Þessi aðgerð rík­is­stjórn­ar­inn­ar að breyta svona miklu mun ekki kosta millj­ón­ir eða tugi millj­óna held­ur hundruð millj­óna. Lýsti for­sæt­is­ráðherra því yfir í umræðu á Alþingi að kostnaður við það eitt að búa til tvö ný ráðuneyti yrði lík­lega um 450 millj­ón­ir króna, þessi fjár­hæð inni­ber ekki kostnað við flutn­ing verk­efna milli ráðuneyta. Fyr­ir 450 millj­ón­ir má gera margt í þágu al­menn­ings, t.d. er þetta helm­ing­ur af því sem það myndi kosta að tryggja ör­yrkj­um stuðning nú fyr­ir jól­in skatta- og skerðing­ar­laust eins og gert var í fyrra.

Nú má ekki mis­skilja orð mín svo að ég telji að ráðuneyt­um megi aldrei breyta, alls ekki, enda geta sam­legðaráhrif af því að færa líka mála­flokka und­ir eitt þak orðið til mik­ils hagræðis og hags­bóta fyr­ir al­menn­ing. En vand­inn við þessa stóru upp­stokk­un virðist vera sá hversu illa ígrundað þetta er. Þegar gerð var breyt­ing á Stjórn­ar­ráðinu í tíð rík­is­stjórn­ar Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur, var það gert í kjöl­far skýrslu rann­sókn­ar­nefnd­ar Alþing­is sem mælti ein­dregið með fækk­un ráðuneyta. Fækk­un svo hægt væri að fækka hindr­un­um og auka sam­vinnu þar sem henn­ar er þörf. Farið var í mikla und­ir­bún­ings­vinnu fjöl­margra starfs­hópa inn­an stjórn­kerf­is­ins svo þessi breyt­ing kæmi best út fyr­ir al­menn­ing og starfs­fólk ráðuneyta. Var sér­stak­lega tekið fram að grund­völl­ur þess hversu vel tókst til væri sú staðreynd að breyt­ing­in væri unn­in í nánu sam­ráði við starfs­fólk Stjórn­ar­ráðsins sem best þekk­ir til innri starfa ráðuneyt­anna. Hlut­verk Stjórn­ar­ráðsins er að þjón­usta al­menn­ing og það verður að vera al­veg skýrt í hug­um al­menn­ings hvert á að leita og hvernig þessi upp­stokk­un á að þjóna al­menn­ingi. 

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram