Þegar svart er sagt hvítt

Hinn súrrealíski harmleikur sem ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur nú frumsýnt í tengslum við söluna á hlut almennings í Íslandsbanka er ekki að fá háa einkunn meðal, íslensku þjóðarinnar. Langlundargeð og umburðarlyndi þessara eigenda eru þó umtalsverð, enda eru þau ýmsu vön þegar kemur að bankasölu Sjálfstæðisflokksins og samstarfsflokka hans, en nú virðist sem jafnvel þessari umburðarlyndu þjóð sé ofboðið. Ekki hefur ráðherrum í ríkisstjórninni tekist vel upp við að skýra afstöðu sína og halda sig við hana því lengra sem frá frumsýningu sölunnar hefur liðið. Eftir því sem vindar blása hafa ráðherrar og aðrir forsvarsmenn sölunnar komið fram með nýjar og nýjar söguskýringar og benda á nýja ábyrgðarmenn fyrir því sem birst hefur sem gegndarlaus spilling, frændhygli og leyndarhyggja.

Í upphafi þessa harmleikjar stigu forsætis- og fjármálaráðherra fram, sögðust vilja upplýsa allt, birta lista kaupenda og velta við steinum enda virtist blasa við að ekki hefði verið farið eftir þeim leikreglum sem lagt var upp með. Þetta gripu þingmenn þeirra flokka á lofti, kölluðu eftir rannsókn en þó ekki rannsóknarnefnd heldur að rannsókn yrði eins og fjármálaráðherra fyrirskipaði, hjá ríkisendurskoðun og skyldi henni lokið fyrir þinghlé í vor. Á sama tíma og það var sagt komu fram aðrir ráðherrar og þingmenn sömu stjórnarflokka, lýstu því yfir að söluferlið væri alls ekkert klúður, að engar reglur hefðu verið brotnar og að þetta hefði allt farið fram samkvæmt áætlun!

Þannig hafa skýringar á þessari súrrealísku sölu á hlut almennings í Íslandsbanka beinlínis verið út og suður, en þó staðfest að þeir sem tóku að sér að annast söluna að þessu sinni fengu fyrir hvorki meira né minna en 700 milljónir króna án útboðs. Kaupendur, sérvaldir af hinum vellaunuðu söluaðilunum, voru 209 og keyptu fyrir allt frá einni milljón til meira en 3.500 milljóna króna í bankanum.

Ekki minnkaði óróleikinn yfir bankasölunni þegar fram steig fyrst framsóknarfólks, viðskiptaráðherrann Lilja Alfreðsdóttir, sem hafði látið lítið fyrir sér fara eftir skemmtun þeirra með bændum í liðinni viku. Hún kvaðst allan tímann hafa varað við ferlinu, verið á móti en þó að sögn annarra við ráðherraborðið, hafa gleymt að láta vita af óánægju sinni. Ekki náðist í Lilju Alfreðsdóttur við ritun þessarar greinar, frekar en þeirra frétta sem um málið hafa fjallað síðasta sólarhring en áfram stöndum við, áhorfendur þessa harmleikjar og ráðum nú í hvort einkunnin sé leiksigur eða enn ein klén frammistaða ríkisstjórnarinnar á kostnað almennings. Ljóst er að almenningur er í áfalli yfir fúskinu og spillingunni sem umlykur þennan gjörning, en spurningin sem eftir stendur er hvenær tjaldið fellur.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram