Tilraunin strandaði á skeri Sjálfstæðisflokksins

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. nóvember 2020

Nú virðist tilraun Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um sérvaldar breytingar hennar á stjórnarskránni hafa strandað á skeri Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst óþolandi að segja: kemur þetta einhverjum á óvart, en það er engu að síður sú tilfinning sem kviknar. Á einum af fyrstu fundum nefndar Katrínar Jakobsdóttur, sem skipuð var formönnum allra flokka er sæti eiga á Alþingi, lét formaður Sjálfstæðisflokksins bóka að hann liti ekki svo á að hann væri á nokkurn hátt skuldbundinn niðurstöðum nefndarinnar, yrði hún sú að lagðar yrðu til breytingar á stjórnarskránni. Var því alveg ljóst frá byrjun að ríkisstjórnarflokkarnir þrír voru ekki samstiga í þessum leiðangri og er tilfinningin óneitanlega sú að um sýndarferð hafi verið að ræða.

Ítrekað hefur því verið haldið fram af forsætisráðherra, sem og fulltrúum Sjálfstæðisflokksins, að sem breiðust sátt þurfi að vera um hverja breytingu sem gera á á stjórnarskrá. Til þessa dags hefur slíkt orðalag einskorðast við það að Sjálfstæðisflokkurinn sé sáttur við óbreytt ástand og að málamiðlun sé ekki í boði. Aðrir þingmenn og almenningur verða þá að lúta því að einn flokkur sé sáttur en aðrir ósáttir. Hin breiða sátt snýst ekki um þjóðarvilja heldur vilja Sjálfstæðisflokksins. Það að í stjórnarsáttmála standi að gera eigi breytingar á stjórnarskránni en að stjórnarflokkarnir ætli ekki að stuðla að því í sameiningu segir margt, því sá leiðangur sem nú hefur verið stundaður í nærri þrjú ár virðist nú opinberlega strandaður á skeri. Engin breið sátt er til staðar. Líkur eru á að tveir til þrír þingmenn leggi fram fáein frumvörp til breytinga á stjórnarskrá, að því er virðist ómeðvituð um að fram hafi farið þjóðaratkvæðagreiðsla fyrir rúmum þremur árum um nýju stjórnarskrána eins og hún þá stóð eftir vinnu stjórnlagaráðs.

Það er þyngra en tárum taki að viðurkenna enn einu sinni vanmátt Alþingis til að klára þetta mál. Það virðist ríkja algjör ómöguleiki hjá Alþingi að semja sínar eigin leikreglur um meðferð valds þess.

Þingflokkar Samfylkingar, Pírata, Flokks fólksins auk tveggja þingmanna utan flokka hafa lagt fram heildarfrumvarp til stjórnskipunarlaga, frumvarpið sem byggt er á niðurstöðu stjórnlaganefndar sem þjóðin greiddi atkvæði um 20. október 2012. Frumvarp sem kom inn til Alþingis og var unnið áfram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og borið undir merkar stofnanir eins og Feneyjanefndina. Sú framlagning er tilraun til að fá Alþingi til að viðurkenna vanmátt sinn gagnvart þessu verki. Þarna erum við með vilja þjóðarinnar skýran og Alþingi á einfaldlega að standa með þjóðinni og framkvæma vald hennar. Annað er hneyksli sem ekki má líðast í lýðræðisþjóðfélagi.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram