Tjáningarfrelsi fylgir ábyrgð

Sumarið er tíminn þar sem margir leggjast í ferðalög, þvælast milli bæja, landa og jafnvel heimsálfa í leit að minningum í reynslu- og minningabankann. Heimssagan, fróðleikur um aðrar þjóðir og menningu, framandi lykt, matur og fólk. 

Það þarf ekkert endilega að fara langt til að upplifa eitthvað nýtt og eins höfum við mismunandi þörf fyrir nýjungar. 

En ferðalög eru ekki alltaf leit að ævintýrum. Sum fara frá heimilum sínum af ótta um líf sitt og velferð. Framundan eru ferðalög án vilja en af nauðsyn. Ferðir án endastöðvar, án vitneskju um hvort ferðalangurinn lifi ferðalagið af, án vitneskju um hvort fjölskyldumeðlimir lifi ferðalagið af og án vitneskju um hvað taki við. Það er því óhætt að fullyrða að í slíkt ferðalag er aldrei haldið af léttúð heldur af lífsnauðsyn. 

Þegar við tjáum okkur um málefni flóttafólks þá þurfum við að átta okkur á þessari staðreynd. Þegar vararíkissaksóknari tekur ákvörðun um að lýsa því yfir að fólk á flótta ljúgi til um samkynhneigð sína, þá gleymir hann að gera grein fyrir því að hinsegin fólk þarf raunverulega að óttast um líf sitt í fjölmörgum ríkjum heims vegna ákvarðana stjórnvalda í þeim ríkjum. Hinsegin fólk óttast lífstíðarfangelsi og dauðarefsingar fyrir það eitt að greina frá kynhneigð sinni eða að upp um hana komist og leitar því verndar. Hér er ég ekki að fjalla um þá hættu sem hinsegin fólk býr við um allan heim vegna fordóma heldur beinlínis lögbundnar ofsóknir af hálfu stjórnvalda. Þetta er staðreynd og hvet ég vararíkissaksóknara til að kynna sér þessi mál, því um þau hefur verið ritað hvort tveggja af íslenskum mannúðarsamtökum sem og erlendum.  

Þegar vararíkissaksóknari velur að spyrja hvort skortur sé á hommum á Íslandi þá er hann einnig að lýsa vanþóknun sinni á hinsegin fólki sem því miður hefur mátt sæta auknum ofsóknum að undanförnu. Spurning hans opinberar jafnframt þá aðskilnaðarhyggju sem hann og of margir aðrir virðast þjást af, enda svaraði hann fjölmiðlum á þann veg þegar á hann var gengið að honum þætti vænt um samkynhneigða, rétt eins og um væri að ræða einsleitan hóp fólks sem hægt væri að flokka frá öðrum. Vararíkissaksóknari hefði allt eins getað spurt hvort það væri skortur á konum á Íslandi nú eða erlendu fólki almennt, en hvort tveggja virðist vera honum sérstakt áhyggjuefni þar sem hann hefur áður tjáð sig með andfélagslegum hætti um hvort tveggja fólk af erlendum uppruna sem og konur sem leita réttar síns vegna ofbeldisbrota. 

Tjáningarfrelsi vararíkissaksóknara er stjórnarskrárvarið, en honum ber að ábyrgjast orð sín. Sum orð eru þess eðlis að þau henta illa þeim sem fer með ákæruvald. Treysta þarf hlutlægni í störfum hans óháð þjóðerni og kynhneigð. Að því þarf hann að huga. 

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram