Val ríkisstjórnar er skýrt

Fátækt er ekki náttúrulögmál heldur pólitískt val ráðandi afla. Ný fjárlög ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur hafa nú litið dagsins ljós og þar sjást áherslur ríkisstjórnarflokkanna þriggja, svart á hvítu. Þau ætla ekki að að jafna kjörin í landinu nú þegar staða ríkissjóðs vænkast. Það er ekki þeirra forgangsmál þrátt fyrir fögur fyrirheit í aðdraganda kosninga.

Munurinn milli lægstu launa í landinu og lífeyris frá almannatryggingakerfinu heldur áfram að aukast og verður um næstu áramót heilar 88 þúsund krónur á mánuði. Bilið hefur stöðugt aukist frá því Sjálfstæðisflokkur tók við stjórnartaumum ásamt Framsóknarflokki árið 2013 og þeir stjórnarflokkar sem nú halda áfram samstarfi virðast ætla að halda áfram að auka þetta bil. Fyrirheit í stjórnarsáttmála um að gera betur við eldra fólk er góðra gjalda vert en úrlausnin virðist eingöngu falla að þeim rúmlega 10% sem hafa atvinnutekjur en ekki þá sem fá greiðslur úr lífeyrissjóðum. Frítekjumark atvinnutekna eldra fólks verður tvöfaldað en ekkert verður hróflað við frítekjumarki atvinnutekna þeirra sem eru á örorku og eru með ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna föst í 109 þúsund krónum og hafa verið föst í þeirri krónutölu frá árinu 2009. Við skulum hafa það í huga að verðlag hefur á sama tíma hækkað um 52,5% og er matarkarfa sem þá kostaði rúmar 12 þúsund krónur á tæpar 19 þúsund í dag.

Stefán Ólafsson sérfræðingur hjá Eflingu hefur verið iðinn við að greina þróun almannatrygginga á Íslandi og bera saman við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar. Hefur hann bent á að íslensk stjórnvöld hafa valið að verja hvað minnstum hluta af landsframleiðslu til velferðarmála miðað við þróuð vestræn ríki innan OECD. Þar er Ísland langt á eftir hinum Norðurlandaþjóðunum á sama tíma og skattbyrði á lífeyrisþega hefur stóraukist. Skerðingar á þeim hópum sem eru á lífeyri eru umtalsverðar í öllu tilliti og leiðir til þess hróplega óréttlætis sem eykst með degi hverjum í boði ríkisstjórnarinnar sem ætlar að setja málin í nefnd ef marka má stjórnarsáttmálann. Svar ráðherra við þessu er að ekki megi gleyma að halli ríkissjóðs sé verulegur sem er rétt en þó ætlar ríkisstjórnin á sama tíma að verja umtalsverðum fjármunum í uppstokkun stjórnarráðsins.  

Ísland er í kjöraðstöðu til að fjárfesta í fólki. Sú fjárfesting mun alltaf skila efnahagslegum ávinningi til frambúðar því fjárfesting í fólki léttir álag og sparar fjármuni á öðrum sviðum. Það að halda fólki í fátækt leiðir til meiri útgjalda í heilbrigðis-, velferðar- og réttarkerfinu. Fátækt er pólitíks ákvörðun og nú þegar ljóst er að staða ríkissjóðs er betri en áætlanir sögðu til um er engin afsökun fyrir því að vinna ekki markvisst að því að útrýma fátækt á Íslandi.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram