Vernda barnaverndarlög bara sum börn?

Í barna- og barnaverndarlögum er skýrt áréttað að stjórnvöld skuli ávallt beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu. Þá er einnig skýrt að vernda beri börn gegn hvers kyns ofbeldi eða vanvirðandi meðferð.

Ég ritaði grein um þetta í byrjun árs 2018 en því miður er staðan enn sú að svo virðist sem stjórnkerfið líti svo á að sum börn njóti ekki verndar samkvæmt barna- og barnaverndarlögum. Þetta er harkaleg fullyrðing en staðan er sú að þegar kemur að því að vernda barn foreldris sem er í deilum við hitt foreldrið hafa barnaverndarnefndir fengið þær leiðbeiningar frá Barnaverndarstofu að ekki skuli hafa afskipti. Þannig getur foreldri sem neitar að skila barni til hins foreldris og neitar jafnvel einnig að skila barni í skóla vikum og mánuðum saman, treyst á að barnavernd muni lítið aðhafast vegna málsins. Þetta eru raunveruleg tilvik sem því miður hafa átt sér stað til mikils tjóns fyrir þau börn sem við þetta búa. Það að einangra barn algjörlega frá foreldri, systkinum, vinum, skólaþátttöku og tómstundum má skilgreina sem ofbeldi gegn viðkomandi barni. Það stjórnvald sem fer með málefni barna verður og ber lögum samkvæmt að stíga inn í án tafar en því er ekki að skipta að sögn vegna leiðbeininga sem barnaverndarnefndir fengu. Mál er varðar þessi börn skal leysa í réttarkerfinu og því heldur barnavernd sér fjarri.  

Umgengni barns við foreldri er einn af grundvallarréttum barns og mætti því ætla að stjórnvöld tækju af festu á því ef á þessum mikilvæga rétti er brotið. Sama má segja um menntun, umönnun og félagslegt atlæti. Því miður eru sýslumannsembættin víða um land afskaplega vanmáttug til að bregðast með fullnægjandi hætti við málum hvar barni er meinað að umgangast foreldri sitt eða stafar hætta af umgengni. Leita þarf ítrekað til dómstóla og ef vilji foreldris til áframhaldandi átaka við hitt foreldrið er fyrir hendi getur það tafið úrlausn mála árum saman til varanlegs tjóns fyrir barnið. Í öfgafyllstu dæmunum er börnum haldið frá leik- og grunnskóla mánuðum saman og þrátt fyrir skólaskyldu og tjón á heilsu barns gerir barnavernd ekkert, jafnvel þótt skólayfirvöld tilkynni fjarveru barnsins. Barnavernd hefur þannig tekið sér stöðu fjarri hagsmunum barnsins í þessum einstaka málum. Vegna tilmæla Barnaverndarstofu, sem nú eru orðin nokkurra ára gömul, virðist sem deilur foreldris við hitt foreldrið, sem þegar verst lætur einkennist af ofbeldi gegn barni, leiði til þess að barnaverndaryfirvöld telji sig undanskilin þeirri skýlausu skyldu sinni í barnaverndarlögum að stjórnvöldum beri að vernda börn. Þetta getur ekki átt að vera svona og vil ég skora á stjórnvöld og barnaverndaryfirvöld að endurskoða þessa málsmeðferð svo öll börn njóti hér verndar.

Æviágrip á vef Alþingis

Smelltu hér til að skoða æviágrip á vef Alþingis
Opna

Fylgstu með

Skráðu þig á póstlistann hjá mér og fylgstu með þeim málefnum sem ég er að vinna að hverju sinni.
Skrá mig
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram