Fátækt er ekki náttúrulögmál. Það að börn og fullorðnir búi við fátækt á Íslandi er pólitísk ákvörðun en ójöfnuður leiðir til minni hagsældar, það er staðreynd.
Skattkerfið er langbesta jöfnunartæki sem við höfum. Með því er hægt að létta undir með þeim tekjulægstu með meiri þátttöku þeirra ríkustu í samneyslunni. Tvær nýjar skýrslur Vörðu, rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins um kjör öryrkja og atvinnuleitenda sýna að þessir þjóðfélagshópar hafa verið skildir eftir á kjörtímabilinu. Svo virðist sem ráðherra öryrkja og atvinnuleitenda, framsóknarmaðurinn Ásmundur Einar Daðason, hafi hreinlega gleymt að hann beri ábyrgð á málaflokkunum og svo virðist sem fjölmiðlar hafi líka gleymt ábyrgð hans enda ekkert heyrst til hans um skýrslurnar á meðan ekki vantar fréttir af útdeilingu hans á skattfé í aðdraganda kosninga. 71% fatlaðs fólks á erfitt með að ná endum saman, 52% ekki hafa efni á fríi og 23% ekki efni á staðgóðri máltíð. Þá hafa nærri 80% fatlaðra einstaklinga neitað sér um heilbrigðisþjónustu! Í hópi atvinnuleitenda kom í ljós að nærri helmingur þeirra hefur neitað sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.
Meðal öryrkja segist þriðjungur ekki geta greitt kostnað vegna skipulagðra tómstunda barna sinna og sama hlutfall segist ekki geta veitt börnum sínum næringarríkan mat. Það að skapa börnum þær aðstæður að alast upp við fátækt skaðar íslenskt samfélag til framtíðar. Það veit barnamálaráðherrann en virðist ómeðvitaður um að þarna hefði hann átt að bregðast við. Það dugar ekki að afhenda fólki sem ekki getur greitt fyrir mat eða heilbrigðisþjónustu tómstundastyrki eins og framsóknarflokkurinn boðar. Sá hópur getur ekki lagt út fyrir dýrum tómstundum fyrir börn sín og fengið hluta endurgreiddan eins og gert var við sérstaka tómstundastyrki í kjölfar heimsfaraldurs. Það þarf að gera betur og við í Samfylkingunni ætlum að gera það.
Við ætlum að bæta kjör barnafjölskyldna með alvöru norrænu barnabótakerfi. Við ætlum að hækka lífeyri og minnka skerðingar. Þannig ætlum við strax að hækka frítekjumark öryrkja vegna atvinnutekna sem hefur staðið óbreytt frá árinu 2010, úr 109 í 200 þúsund. Við ætlum að minnka kjarabilið þannig að öryrkjar nálgist að nýju lágmarkslaun í landinu en tekjubilið milli lægstu launa og lífeyris hefur aldrei verið meiri en í tíð fráfarandi ríkisstjórnar. Við ætlum okkur að beita skattkerfinu þannig að eignamesta 1% landsmanna greiði hærri hlut af hreinum eignum sínum í samneysluna og ætlum sækja meiri fjármuni með hækkun veiðileyfagjalds. Já, það er hægt að jafna kjörin í gegnum skattkerfið en til þess þarf pólitískt hugrekki og vilja til að jafna kjör íbúa landsins. Hvort tveggja höfum við í Samfylkingunni.