Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna er hafin í Glasgow. Þangað streyma um 25 þúsund fulltrúar frá rúmlega 200 löndum enda verkefnið það mikilvægasta af öllum - að bjarga heiminum frá lífsstíl okkar og gera plánetuna jörð að búsetustað allra lífvera áfram.
Þetta er vissulega dramatískt, en engu að síður staðreynd. Ef við gerum ekkert, keyrum samfélögin áfram með viðlíka hætti næstu 30 ár og síðustu 30 þá munum við hægt og rólega útrýma lífverum og búsetusvæðum. Vísindin hafa sýnt okkur þetta en þau hafa líka kennt okkur ýmsar leiðir til að koma í veg fyrir slíkt neyðarástand og þar verður mannkynið allt að taka höndum saman. Og það er hægt, ef við bara viljum.
Hér á Íslandi heyrast stundum þær raddir að við séum svo smá og fá að það skipti engu máli hvað við gerum. Það er alrangt því okkar losun á gróðurhúsalofttegundum er hluti af heildinni. Losunin hefur engin landamæri og sem betur fer hafa ríki heims samið um ákveðnar leikreglur varðandi útreikning losunar og útdeilingu kvóta og við verðum að muna að með því að standa ekki við loforð okkar um samdrátt í losun þá komum við til með að greiða háar sektir. Það er því hvort tveggja samfélagslega og efnahagslega mikilvægt að standa við loforð okkar um samdrátt á losun, standa við loforð um kolefnishlutleysi. Þess vegna verðum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að minnka losun og nota til þess allar mögulegar leiðir.
Stjórnvöld þurfa að draga úr notkun einkabíla með stóreflingu almenningssamgangna um allt land því það er fjárfesting til framtíðar. Kröftugar almenningssamgöngur þurfa að vera Borgarlína, sem má hraða með afgerandi hætti, Keflavíkurlína sem myndi minnka vægi einka- og rútubíla milli Suðurnesja og Höfuðborgarsvæðis og svo landlína sem þjónar Vestulandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi. Stjórnvöld verða að vera stórtæk og skapa almenningi alvöru valkost við einkabílinn um allt land með úrlausnum og niðurgreiðslum á ferðum. Þau sem myndu nýta almenningssamgöngur daglega fengju aukinn afslátt og með því að gera ferðir gjaldfrjálsar fyrir börn og ungmenni ölum við upp nýjar kynslóðir notenda almenningssamgangna.
Stjórnvöld þurfa líka að styrkja með mynduglegum hætti íslensk fyrirtæki eins og Carbfix sem vinna að varanlegri kolefnisbindingu í jörðu. Kolefnisförgun er markviss og nauðsynleg leið fyrir okkur til að ná loftslagsmarkmiðum okkar og er framúrskarandi tæknilausn sem byggir á traustum vísindalegum grunni sem nú þegar er að hafa mikil áhrif. Þar er hægt að gera stærri hluti ef stjórnvöld hafa áhuga á.
Við á Íslandi getum gert margt en til þess þarf samstíga ríkisstjórn sem þorir að fara í stórtækar aðgerðir. Vonandi fáum við slíka stjórn.