Við erum ríkt land af auðlindum og góðum lífsskilyrðum. Hagsæld hefur verið hér með ágætum en betur má ef duga skal. Grundvöllur hagsældar er að hér ríki jöfnuður og hann verðum við að auka, því þótt tekjujöfnuður sé hér nokkur þá er eignaójöfnuður verulegur og það bitnar fyrst og fremst á þeim tekjulægstu. Þá er alveg ljóst að þau sem byggja afkomu sína á tekjum frá almannatryggingum búa flest hver við afar kröpp kjör.
Til að halda hér uppi samfélagi jöfnuðar þurfum við að nýta okkar tæki til að jafna byrðarnar og styðja við þá sem helst þurfa á því að halda. Íslendingar verja hvað minnstum fjármunum til bótakerfisins af EES ríkjum, en aðeins tæp 28% af útgjöldum ríkisins fara í ellilífeyri, barnabætur, atvinnuleysisbætur og fleiri flokka. Þarna birtast okkar veikleikar því við gerum þeim sem þurfa á stuðningi okkar að halda að lifa við fátækt sem leiðir til eymdar og mikils kostnaðar annars staðar í kerfinu. Börn sem alast upp við fátækt eiga það frekar á hættu að búa við fátækt á fullorðinsárum. Þau hætta frekar námi til að hefja störf til stuðnings við fjölskylduna og þá sýna rannsóknir Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, að þau efnaminni leiti sér síður læknisaðstoðar. Við verðum að gera betur þegar kemur að stuðningi við fólk og fjölskyldur og þurfum til þess hvort tveggja pólitískan vilja til að auka hér jöfnuð en einnig fleiri vinnandi hendur.
Í síðustu viku var kynnt ný rannsókn Samtaka atvinnulífsins um að fyrirsjáanlegur skortur væri á starfsfólki á komandi árum og að líkast til þyrftu um 12 þúsund manns að flytja hingað til lands til margvíslegra starfa. Skortur á vinnuafli er hvort tveggja á einkamarkaði sem og hinum opinbera. Við höfum heyrt rætt um skort á heilbrigðisstarfsfólki sem virðist vera vandamál á heimsvísu en þá ættum við að gera það sem við getum til að liðka til fyrir komu heilbrigðisstarfsfólks erlendis frá með sambærilega menntun.
Við þurfum einnig að liðka til fyrir starfsfólki í öðrum mögulegum greinum, svo sem ferðaþjónustu, byggingariðnaði, tæknigeira og listum. Sú útlendingastefna sem ríkisstjórnir síðasta áratugar hafa staðið fyrir hefur því miðu lokað hér dyrum, utan þess að tekin var ákvörðun um að veita hér 6 mánaða leyfi fyrir efnameiri sérfræðinga utan EES svæðisins til að stunda hér fjarvinnslu. Hvers vegna var ekki tekin ákvörðun um að lækka múrana og heimila fólki að koma hingað til starfa fyrst skortur á vinnandi fólki er það sem helst getur hamlað hagvexti? Þá er alveg ljóst að það fólk sem flýr heimili sín þessi misserin vegna stríðsátaka vill umfram allt koma sér fyrir á friðsamlegum slóðum og hefja störf sér til framfærslu. Við eigum að liðka til fyrir hingaðkomu fólks en ekki reisa múra.